Frakkland

Lýðveldið Frakkland
République française
Fáni Frakklands Skjaldarmerki Frakklands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Liberté, égalité, fraternité (franska)
Frelsi, jafnrétti, bræðralag
Þjóðsöngur:
La Marseillaise
Staðsetning Frakklands
Höfuðborg París
Opinbert tungumál Franska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Emmanuel Macron
Forsætisráðherra Michel Barnier
Stofnun
 • Verdun-samningurinn 843 
 • Núgildandi stjórnarskrá 1958 
Evrópusambandsaðild 25. mars 1957
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
42. sæti
640.679 km²
0,86
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
20. sæti
68.042.591
121/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 2.954 millj. dala (10. sæti)
 • Á mann 45.454 dalir (26. sæti)
VÞL (2019) 0.901 (26. sæti)
Gjaldmiðill Evra
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Ekið er hægra megin
Þjóðarlén .fr
Landsnúmer +33

Frakkland eða Lýðveldið Frakkland, (franska République française eða France) er land í Vestur-Evrópu sem nær frá Miðjarðarhafi í suðri að Ermarsundi í norðri og frá Rín í austri að Atlantshafi í vestri. Vegna lögunar landsins gengur það oft undir heitinu „sexhyrningurinn“ (fr. Hexagone) hjá Frökkum sjálfum. Í Evrópu á Frakkland landamæri að Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Mónakó, Spáni og Andorra, en handanhafssýslur þess í öðrum heimsálfum eiga landamæri að Brasilíu, Súrínam og Hollensku Antillaeyjum. Landið tengist Bretlandseyjum gegnum Ermarsundsgöngin. Frakkland skiptist í 18 héruð (þar af 5 utan Evrópu) sem ná yfir samanlagt 643.801 km². Þar búa yfir 68 milljónir manna. Frakkland er einingarríki sem býr við forsetaþingræði. Höfuðborg landsins er París sem er jafnframt efnahagsleg og menningarleg höfuðborg. Aðrar stórar borgir eru Lyon, Marseille, Toulouse, Bordeaux, Lille og Nice. Frakkland og hjálendur þess ná yfir 12 tímabelti, sem er það mesta sem þekkist.

Elstu merki um byggð í Frakklandi eru frá fornsteinöld. Á járnöld settust Keltar sem nefndust Gallar að þar sem Frakkland er nú. Rómaveldi lagði landið undir sig árið 51 f.Kr. og franska þróaðist sem tungumál út frá blöndun gallverskrar og rómverskrar menningar. Hinir germönsku Frankar lögðu landið undir sig árið 476 og stofnuðu þar konungsríkið Frankíu sem varð kjarni veldis Karlunga. Með Verdun-samningnum 843 var ríkinu skipt og Vestur-Frankía varð konungsríkið Frakkland árið 987. Frakkland var öflugt lénsveldi á hámiðöldum en átök um yfirráð yfir lénum milli frönsku og ensku konungsættanna leiddu til Hundrað ára stríðsins á 14. og 15. öld. Þá tók að verða til sérstök frönsk sjálfsmynd. Eftir lok stríðsins blómstraði frönsk menning í frönsku endurreisninni milli 15. og 17. aldar. Um leið átti landið í átökum við Spán og Heilaga rómverska ríkið og kom sér upp nýlenduveldi sem á 20. öld var það annað stærsta í heimi á eftir breska heimsveldinu. Eftir borgarastyrjaldir á 17. öld blómstraði Frakkland undir stjórn Loðvíks 14.. Á 18. öld beið það ósigra gegn Bretlandi í Sjö ára stríðinu, studdi sjálfstæði Bandaríkjanna en varð sjálft vettvangur Frönsku byltingarinnar sem steypti konungi af stóli og stofnaði lýðveldi árið 1789.

Frakklandi náði hátindi sem hernaðarveldi undir stjórn Napóleons Bónaparte í upphafi 19. aldar. Hann lagði undir sig stærstan hluta af meginlandi Evrópu og stofnaði fyrsta franska keisaradæmið. Frönsku byltingarstríðin og Napóleonsstyrjaldirnar höfðu mikil áhrif á þróun Evrópu og mannkynssöguna alla. Hrun keisaradæmisins var upphafið að hnignunartímabili og endurteknum stjórnarkreppum fram að stofnun þriðja franska lýðveldisins í fransk-prússneska stríðinu 1870. Í kjölfarið blómstruðu vísindi og listir og efnahagsuppgangur varð á tímabilinu sem kallað var Belle Époque („fagra tímabilið“). Frakkland var einn Bandamanna í fyrri heimsstyrjöld og síðari heimsstyrjöld þar sem landið var að hluta hernumið af Þjóðverjum frá 1940 til 1944. Eftir stríð var fjórða franska lýðveldið stofnað, en það leystist upp eftir ósigra Frakka í styrjöldinni í Alsír. Fimmta franska lýðveldið var stofnað af Charles de Gaulle árið 1958. Nær allar nýlendur Frakka fengu sjálfstæði eftir 1960, en margar þeirra hafa enn mikil stjórnmálaleg, menningarleg og efnahagsleg tengsl við Frakkland.

Frakkland hefur lengi talist vera miðstöð lista, vísinda og heimspeki. Landið er í 5. sæti yfir fjölda færslna á Heimsminjaskrá UNESCO og er vinsælasta ferðamannaland heims, með yfir 89 milljón ferðamenn árið 2018. Frakkland er þróað ríki og sjöunda stærsta hagkerfi heims að nafnvirði, og það níunda stærsta kaupmáttarjafnað. Landið situr hátt á listum yfir menntun, heilbrigðisþjónustu, lífslíkur og lífsgæði. Á heimsvísu er Frakkland enn stórveldi og á fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Frakkland er meðal stofnaðila Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins. Það á aðild að G7, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Samtökum frönskumælandi ríkja.


Frakkland

Dodaje.pl - Ogłoszenia lokalne